Athugið samkvæmt nýju forgjafarreglunum eiga allir hringir sem skráðir eru í GolfBox að vera forgjafarhringir. Það þýðir að ritari þarf að staðfesta að skorið sé rétt og leikið hafi verið eftir golfreglunum. Þegar ritari hefur staðfest hringinn kemur hann til útreiknings á forgjöf.
Góð regla er að tilkynna ritara áður en hringur hefst að verið sé að leika til forgjafar. Strax eftir hringinn skal bera saman skorkortin og láta ritara vita að hann fái síðar sama dag sent skorið til staðfestingar í GolfBox. Þá eru báðir aðilar upplýstir. Þegar leitað er að ritara þá er æskilegt að vita meðlimanúmer viðkomandi.
Í appinu getur einn kylfingur skráð skor fyrir allan ráshópinn þ.e. sjálfan sig og þrjá aðra sé þess óskað. Það þýðir að hann þarf að velja sér ritara fyrir sjálfan sig til að staðfesta skorið sitt en er svo skráður ritari fyrir hina þrjá þegar hann sendir og staðfestir skorið. Því er góð regla að bera saman skorkort við alla í ráshópnum áður en skorið er sent úr farsímanum.
Ef kylfingur telur sig hafa skráð rangt skor eða rangan teig þá getur hann eytt skorkortinu svo lengi sem ritari hefur ekki hafnað því eða staðfest það. Eftir að kylfingur hefur eytt skorkortinu þá getur hann sett hringinn aftur inn og sent á ritara. Athugið að heimaklúbbur getur alltaf gripið inn í og staðfest, hafnað eða eytt skorkorti kylfings.
Kylfingur skal skila sínu skori eins fljótt og við verður komið eftir að hring er lokið og fyrir miðnætti á leikdegi (staðartími). Ef hringurinn er skráður og staðfestur samdægurs þá getur komið inn PCC leiðrétting vegna vallaraðstæðna eftir miðnætti sem verður þá sýnileg næsta dag.