Mótakerfi GolfBox býður nú upp á að keppendur undirriti skorkort rafrænt eftir að þeir hafa slegið inn skor bæði sem ritari og keppandi. Hingað til hefur einungis verið hægt að skrá skorið sitt sjálfur eins og flestir þekkja sem tekið hafa þátt í mótum. Með þessari nýju virkni getur mótastjóri ákveðið að hver keppandi þurfi að velja sér ritara í ráshópnum sem verður þá að undirrita skorkortið rafrænt.
Þetta virkar í raun eins og áður nema nú þurfa keppendur ekki áþreifanlegt eða útprentað skorkort. Þetta einfaldar og flýtir vinnu mótastjóra sem getur þá fylgst betur með stöðu mála.
Þessi rafræna undirritun hefur verið þróuð til að taka á öllum þeim atriðum sem keppandi gæti lent í á hringnum. Þessi nýja virkni inniheldur meðal annars:
- Velja ritara.
- Breyta um ritara ef keppandi hættir.
- Möguleiki á að merkja að keppandi hætti.
- Leysa ágreining ef misræmi er í skorskráningu milli ritara og þín.
Ef upp kemur misræmi í skorskráningu milli ritara og keppanda þá kemur kerfið með athugasemd sem báðir þurfa þá að smella á og leiðrétta skorið á þeirri holu.
Eftir að ritari og keppandi hafa samþykkt og leyst úr ágreiningi ef einhver er, verður hægt að undirrita skorkortið. Þetta eykur aðhald við skorskráningu og minni líkur á að röngu skori eða villum sé skilað inn undirrituðum.
Þessi nýja virkni kemur ekki í staðinn fyrir þá sem hefur verið möguleg hingað til heldur er þetta viðbót. Það verður áfram hægt að nota skorskráningu án þess að krefja keppendur um að velja ritara.
Við treystum því að keppendur og mótsstjórar eigi eftir að fagna þessari nýjung.